Hvað er hegðun og væntingar til hegðunar

Í 1. þætti af “Uppeldisspjallinu” er fjallað um hvað hegðun er og væntingar til hegðunar barna. Við fengum til okkar hana Bergljótu Gyðu sálfræðing í spjall til að ræða þetta. 

Hvað er hegðun?

Hegðun er allt sem við sjáum í fari barns, allt sem það gerir og segir.
Börn sýna ólíka hegðun í svipuðum aðstæðum því þau eru ólík að upplagi (erfðir) og hafa lært ólíka hluti af umhverfi sinu.

Væntingar:

Mikilvægt er að hafa raunhæfar væntingar til hegðunar barna, ekki of miklar og ekki of litlar. Raunhæfar væntingar auka líkur á því að börnum líði vel með sjálf sig og fagni litlu sigrunum sem verða. Raunhæfar væntingar geta þannig stuðlað að auknu sjálfstrausti uppalenda og skapað meiri gleði í uppeldishlutverkinu.

„Þumalputtaregla“ um raunhæfar væntingar til hegðunar barna er að þau geri það sem ætlast er til af þeim í 70% tilvika eða oftar. Mikilvægt er að muna að öll börn sýna einhvern tímann hegðun sem ekki er ætlast til að þau sýni, en í mismiklum mæli.

Þegar væntingar eru mótaðar, er meðal annars gott að hafa í huga aldur og þroska barnsins, sögu barnsins (hvernig hefur það hegðað sér áður), hvað barnið kann og getur, og síðast en ekki síst að það sé tryggt að barnið viti til hvers er ætlast af því í tilteknum aðstæðum.

Til að barn viti til hvers er ætlast af því er góð regla að fara yfir með barninu þá hegðun sem það á að sýna í tilteknum aðstæðum. Til þess að vera viss um að barnið viti hvað eigi að gera og hvernig er gott að biðja barnið um að endurtaka, til dæmis fyrirmæli. Einnig er hlutverkaleikur og æfing frábær og skemmtileg leið til að læra (nýja) hegðun og færni.  

Til að festa hegðunina í sessi er mikilvægt að hrósa 🙂 Ef barnið hefur sýnt þá hegðun sem ætlast var til af því er til dæmis hægt að nota munnlegt hrós og segja ítarlega frá því sem vel var gert, til dæmis: “Þú stendur þig vel í að hvísla/tala lágt í kirkjunni.” 

Einnig er hægt að gefa merki sem segir barninu að það sé að standa sig vel, til dæmis með því að gera thumbs up, klesstann eða high five. Þá er mikilvægt að merkið komi strax í kjölfar hegðunar svo barnið viti að þessi tiltekna hegðun sé æskileg 🙂