Styðjandi/þvingandi uppeldisaðferðir

Uppeldisaðferðir hafa áhrif á hegðun og aðlögun barns

Sem uppalendur fáum við tækifæri til að kenna börnum fjölbreytta færni sem mun nýtast þeim í nútíð og framtíð. Sem dæmi má nefna færni til að eiga í jákvæðum samskiptum, eignast vini, að leysa vandamál á farsælan hátt, tjá tilfinningar, hafa stjórn á þeim og sýna samkennd. Í gegnum þær uppeldisaðferðir sem við notum leggjum við áherslu á þá þætti sem við viljum kenna og ýta undir. Einnig erum við sem uppalendur fyrirmyndir og þannig fer fram mikilvæg kennsla á margvíslegum þáttum.

Hægt er að segja að börn læri hegðun sína af samskiptum við aðra og því er mikilvægt að styrkja ákveðin hegðunarmynstur, sem uppalendur geta gert með ákveðnum uppeldisaðferðum. Uppeldisfærni er mikilvægur þáttur í lífi barna og getur verið bæði þvingandi þáttur og styðjandi þáttur. Þar koma uppeldisaðferðir sterkt fram eins og myndin hér að neðan sýnir.

 
Myndin sýnir SIL (e. Social interaction learning) líkan Patterson. Lögð er megináhersla á að uppalendur séu helstu aðilar í að breyta hegðun barna sinna. Áhersla er lögð á áhrif félagslegs umhverfis á aðlögun barns og að vandinn sé skoðaður heildrænt. Nærumhverfi og umhverfisþættir hafa áhrif á samskipti foreldra og barns ásamt líðan barnsins.

Þvingandi uppeldisaðferðurÞvingandi uppeldisaðferður ýta undir óæskilega hegðun barns. Slíkar uppeldisaðferðir einkennast af: 

  • Samskiptaerfiðleikum
  • Stigvaxandi valdbeitingu
  • Neikvæðri styrkingu

Sem uppalendur getum við öll lent í “gildrum” vegna óæskilegrar hegðunar barns. Við getum gripið til þvingandi aðferða sem virka til skamms tíma, t.d. hótanir, en til lengri tíma litið getur notkun slíkra aðferða orðið til þess að það þróast vítahringur neikvæðra og erfiðra samskipta sem getur haft hamlandi áhrif á aðlögun barns.

Í 5.þætti af “Uppeldisspjallinu er rætt nánar um þessar gildrur þvingandi aðferða og leiðir til að reyna að forðast að falla í þær.

Ein mikilvægasta leiðin til að reyna að koma í veg fyrir að falla í gildrur þvingandi samskipta og koma þannig í veg fyrir að vítahringur neikvæðra samskipta myndist (eða til að rjúfa slíkan vítahring) er að nota styðjandi uppeldisaðferðir.

Styðjandi uppeldisaðferðir

Styðjandi uppeldisaðferðir ýta undir jákvæða aðlögun og æskilega hegðun hjá barni. Slíkar uppeldisaðferðir fela meðal annars í sér:

  • Skýrar væntingar og skilaboð um hegðun

  • Að vera samkvæmur sjálfum sér með skýrar reglur

  • Að vera samtíga sem uppalendur sem koma að barninu

  • Jákvæða samveru

  • Hvetjandi umhverfi

Með styðjandi uppeldisaðferðum er ýtt undir jákvætt umhverfi fyrir barn til að þroskast í. Sem uppalendur getum við notað hvatningu til að kenna nýja færni og mynda öruggt/stöðugt umhverfi fyrir barn til að læra nýja færni. 

Í 6.þætti af “Uppeldisspjallinu” er nánar farið í það hvernig hægt er að skapa styðjandi umhverfi fyrir barn og hvernig hvatning er gangleg í uppeldinu.