Áhrifaþættir hegðunar

Í 2. þætti af “Uppeldisspjallinu” er fjallað um hvaða þættir hafa áhrif á hegðun og um tilgang hegðunar. Við fengum til okkar hana Berglindi Sveinbjörnsdóttur atferlisfræðing í spjall til að ræða þetta.

Hvaða þættir hafa áhrif á hegðun?

Margir þættir ýta undir, koma af stað og viðhalda tiltekinni hegðun. Hægt er að skipta þessum þáttum í þrjá flokka; Bakgrunnsáhrifavalda, aðdraganda og afleiðingar.

Bakgrunnsáhrifavaldar hafa óbein áhrif á hegðun þar sem þessir þættir geta aukið líkur á að tiltekin hegðun komi fram en koma hegðuninni ekki af stað. Helstu dæmi um bakgrunnsáhrifavalda eru svefn, næring, lyf, streituvaldandi aðstæður og skortur á undirstöðufærni. Erfitt getur verið að átta sig á því hvort og þá hvaða bakgrunnsáhrifavaldar hafa áhrif á hegðun því þessir þættir eiga sér oftast ekki stað rétt áður en að hegðun birtist, heldur einhverjum klukkustundum eða jafnvel dögum áður. Mikilvægt er því að hafa í  huga mögulega áhrif þeirra.

Aðdragandi er það sem gerist rétt á undan tiltekinni hegðun, hægt er að segja að þessir þættir kveiki á hegðuninni og komi henni þannig af stað. Helstu dæmi um aðdraganda hegðunar eru aðstæður, einstaklingar eða verkefni (fyrirmæli/kröfur). Algengur aðdragandi óæskilegrar hegðunar eru til dæmis fyrirmæli frá uppalenda, athugasemd frá bekkjafélaga, viðvera ákveðins aðila, krefjandi, löng verkefni eða neitun frá uppalenda.

Afleiðingar eru það sem gerist eftir að tiltekin hegðun á sér stað. Dæmi um afleiðingar geta verið athygli frá uppalenda eða félögum, að sleppa við að gera eitthvað erfitt eða óþægilegt eða að fá að gera eitthvað eftirsóknarvert. Afleiðingar hegðunar hafa mikil áhrif á það hvort að tiltekin hegðun eigi sér stað aftur eða ekki.

Hver er/getur verið tilgangur hegðunar?

Hegðun þjónar alltaf tilgangi. Hegðun er ein leið barna til að fá þörfum sínum mætt í tilteknu umhverfi. Þegar börn skortir færni til að tjá þarfir eða ná markmiðum sínum á viðeigandi hátt getur þau sýnt óæskilega hegðun. Óæskileg hegðun er í eðli sínu ekki frábrugðin æskilegri/viðeigandi hegðun og er yfirleitt skiljanleg þegar allir þættir sem hafa áhrif á hegðunina eru skoðaðir. Óæskileg hegðun er oft áhrifameiri en æskileg/viðeigandi hegðun og leiðir gjarnan til skjótra viðbragða. Fólk læra fljótt einfölustu leiðina til að fá það sem það þarf.

Hvernig geta bakgrunnsáhrifavaldar, aðdragandi og afleiðingar haft áhrif á hegðun barns?

Dæmi 1: Þegar Eiríkur sem er með námserfiðleika (bakgrunnsáhrifavaldur) fær fyrirmæli um að vinna langt verkefni sem honum finnst erfitt (aðdragandi) neitar hann að vinna verkefnið, truflar bekkinn með því að hrópa hátt (hegðun) og er þá sendur fram á gang (afleiðing).

Dæmi 2: Þegar Karlotta er þreytt (bakgrunnsáhrifavaldur) og bróðir hennar segir henni að hún sé frekja (aðdragandi) hleypur hún að honum og sparkar í hann (hegðun), í kjölfarið koma foreldrar þeirra hlaupandi og skamma þau (afleiðingar).

Dæmi 3: Þegar Lárus er seinn í skólann (bakgrunnsáhrifavaldur) og kennarinn hans segir að hann fái seint í kladdann þegar hann gengur inn í skólastofuna (aðdragandi) verður Lárus pirraður, neitar að byrja á verkefninu og segir að kennarinn sé auli (hegðun), og bekkjafélagar hans gefa honum “high five” og segja að hann sé kúl (afleiðingar).

Dæmi 4: Þegar foreldrar Agnesar hafa verið að rífast mikið í vikunni (bakgrunnsáhrifavaldur) og Agnes fær neitun frá föður sínum um að fá að vera lengur úti um helgina (aðdragandi) öskrar hún á föður sinn, grætur og fer inn í herbergið sitt og skellir hurð (hegðun), í kjölfarið fer móðir hennar til hennar og leyfir henni að fá aðeins lengri útivistatíma (afleiðing).

Dæmi um myndræna uppsetningu áhrifaþátta hegðunar

Smelltu á “hlusta” til að fræðast enn frekar um áhrifaþætti hegðunar og tilgang, og um gangleg ráð til að breyta/bæta hegðun