Hvatning – hrós

Hvað er hrós og hvernig er gagnlegast að nota það? 

Hrós er ein leið til að nota hvatningu. Þá er lagt orð á jákvæða eða nýja hegðun í þeim tilgangi að auka eða viðhalda henni. Þegar barn lærir nýja hegðun eða færni er mikilvægt að hrósa fyrir litlu skrefin í átta að stóra markmiðinu, frekar en að hrósa fyrir markmiðið sjálft. Með því að hrósa veitum við tiltekinni hegðun athygli og gefum börnum skilaboð um hvað skiptir máli. Með því að hrósa til dæmis fyrir þrautseigju, framlag, dugnað, tillitsemi, þolinmæði, hugrekki og seiglu ýtum við undir þá þætti í hegðun barna. 

Árangursríkt hrós er skýrt, nákvæmt, auðskiljanlegt, hreinskilið, stutt og laggott og jákvætt.

Dæmi:

  • Gaman hvað þú notar marga liti þegar þú teiknar myndina
  • Það var fallegt af þér að hjálpa Sigga þegar hann var í vandræðum
  • Mikið ertu tillitsamur við systur þína þegar þú spyrð hana um leyfi 
  • Þú lagðir þig mikið fram í heimalærdómnum í dag
  • Takk fyrir að hengja upp úlpuna þína
  • Þakka þér fyrir að koma heim kl. 22 eins og ég bað þig um
  • Flott hjá þér að taka til í herberginu áður en Kalli kemur í heimsókn
  • Gott hjá þér að prófa að fara í sund þó þér hafi fundist það erfitt

Hrós er einnig öflugt verkfæri til að kenna börnum flóknar rútínur. Þá brjótum við rútínuna niður í skref (gott að hafa sjónrænt) og hrósum fyrir litlu skrefin í átt að tilteknu markmiði. Við getum bæði notað munnlegt hrós eða gefið “thumbs up” eða “high five” eftir lítil skref. Til dæmis þegar barn er að læra að tannbursta sig og rútínuna í kringum það. 

Þá byrjum við til dæmis á því að hrósa barninu fyrir lítið skref og höldum svo áfram koll af kolli: 

  1. Koma inn á bað þegar uppalandinn segir að nú eigi það að tannbursta  (T.d. Takk fyrir að koma inn á bað um leið og ég sagði)
  2. Sækja tannburstann
  3. Setja tannkremið á
  4. Bursta í 2 mínútur
  5. Skola tannburstann
  6. Setja tannburstann í glasið

Í 6.þætti af “Uppeldisspjallinu” er nánar farið í það hvernig hægt er að skapa styðjandi umhverfi fyrir barn og hvernig hvatning er gangleg í uppeldinu.