Að vera samkvæmur sjálfum sér og samstíga í uppeldi

Í 4. þætti af “Uppeldisspjallinu” ræðum við Viðjuteymið um hvað felst í því að vera samkvæmur sjálfum sér og samstíga í uppeldinu og förum  yfir gagnleg ráð til að vera meira samstíga.

Hvað þýðir að vera samkvæmur sjálfum sér í uppeldi?

Að nota sömu uppeldisaðferð frá degi til dags. Það felur meðal annars í sér að notast við sömu gildi, væntingar, viðmið, reglur, kröfur, mörk og stuðning í uppeldinu. 

 

Hvað er gott við að vera samkvæmur sjálfum sér í uppeldi?

Að vera samkvæmur sjálfum sér í uppeldinu er gagnlegt bæði fyrir líðan og hegðun barna og uppalenda. Þegar uppalendur hafa svipaðar væntingar, reglur og kröfur til barna frá degi til dags, læra börnin fyrr og betur það sem ætlast er til af þeim og eru líklegri til að fylgja því eftir (hegðun). Að vita til hvers er ætlast eykur fyrirsjáanleika sem dregur úr óvissu og óöryggi barna (líðan). Ef uppalendur eru með mismunandi reglur, kröfur eða væntingar til barns eykur það líkur á ágreiningi. Mikill tími fer þá gjarnan í að rökræða og semja um þessi atriði (hegðun barna og uppalenda) sem getur leitt til pirrings, vonbrigða og annarra svipaðra tilfinninga (líðan barns og uppalenda).

Börn þrífast best í fyrirsjáanleika þar sem reglur, kröfur, væntingar og viðmið um hegðun eru skýr 🙂 Þá geta þau leikið sér áhyggjulaust og vita hvað bíður þeirra þegar á reynir. 

 

Fyrirsjáanleiki en einnig sveigjanleiki

Sveigjanleiki er einnig mikilvægur öðru hverju. Þegar uppalendur sýna sveigjanleika er það undantekningin frá reglunni. Þá breytast kröfur, væntingar eða reglur tímabundið eða við ákveðnar aðstæður. Til dæmis ef amma og afi sem búa í öðru landi eru í heimsókn og barnið fær að vaka aðeins lengur. Þegar breytt er út af vananum er gott að taka það sérstaklega fram við barnið, að nú séu sérstakar aðstæður og aðeins í kvöld breytist háttatíminn. Á morgun er ennþá í gildi sama reglan og vanalega. 

Sum börn ráða betur við sveigjanleika en önnur og því er gott að meta hverjar aðstæður fyrir sig. Stundum þarf að undirbúa extra vel ef breytt er út af vananum en stundum er nóg að segja barninu að þetta sé undantekning. 

 

Allir uppalendur eru samtíga

Það þarf heilt samfélag til að ala upp barn og þegar allir aðilar sem koma að barninu vinna saman gengur yfirleitt best. Samvinna sem snýr að því að koma á skipulagi, fyrirsjáanlega, rútínu og skýrum viðmiðum fyrir æskilega hegðun er gagnlegt fyrir barnið (hegðun og líðan). 

Barn sem fær sömu skilaboð frá ólíkum aðilum í nærumhverfi sínu er líklegra til að tileinka sér þá getu/færni/þekkingu fljótt. Sömu viðmið um hegðun og svipaðar reglur á ólíkum stöðum ýta undir öryggi hjá barninu og að það upplifi að samvinna ríki milli uppalenda. 

 

Hvernig geta uppalendur áttað sig á hvort þeir séu almennt samstíga eða ósamstíga?

Ef börn eru mikið að rökræða við uppalendur um reglur, mörk eða kröfur getur það verið vísbending um að uppalendur í lífi barnsins séu ósamstíga.  

Hins vegar er gott að hafa í huga að það er hluti af þroskaferli barna að reyna á mörkin og sjá hversu mikið þau fá frá hverjum og einum uppalenda og því fyrr sem þau sjá að allir gera eins því fyrr sættast þau við fyrirkomulagið.

 

Hvernig geta uppalendur verið meira samstíga?

Rætt saman um reglur, væntingar og kröfur.

Haft skýr viðmið um hegðun.

Sett markmið (t.d. stóra markmiðið er að barnið borði a.m.k. 10 bita).

Skipulagt/samræmt viðbrögð (t.d. hvað á að gera ef barnið neitar eða fer ekki eftir fyrirmælum).

 

Samvinna við barnið

Þegar uppalendur hafa ákveðið markmið er skemmtilegt og gagnlegt að fá að heyra hvað barnið sjálft hefur að segja um leiðina að markmiðinu. Börn gefa gríðarlega mikilvægar upplýsingar og þau eru samvinnuþýðari ef þau eru höfð með í ráðum. 

Markmið sem uppalendur setja í upphafi er til dæmis að barnið eigi að sofa í sínu rúmi, en barnið er með í að ákveða hvernig kvöldrútína er skipulögð. Annað dæmi gæti verið að öll tæki skulu vera sett á ákveðinn stað klukkan 22:00 og barnið fær að velja staðinn eða ákveða hvenær það vill nota tækjatímann sinn fyrir kl. 22:00. 

Smelltu á “hlusta” til að fræðast enn frekar um hvað felst í því að vera samkvæmur sjálfum sér og samstíga í uppeldinu.